Laugardagur, 20. október 2012
Að ferðalokum.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það er sem veldur því að einstaklingur eða hópur stútungs stráka ( eða stelpna ef því er að skipta) leggur land undir fót á mótorhjóli þar sem ferðalagið er eini tilgangurinn.
Ég hef sjálfur farið í margar langar mótorhjólaferðir erlendis á síðustu árum en það sem toppaði það var ferð sem við fórum þrír félagar yfir Bandaríkin árið 2001.
Sjá : http://coast-to-coast-2001.blog.is
Hætturnar eru margar, það er allra veðra von og þetta getur verið streituvaldandi með mikilli vosbúð. Mótorhjólið er einstakt farartæki, það þekkja þeir sem reynt hafa. Það fylgir því alveg sérstök frelsistilfinning að líða áfram á vélfáknum og hafa óhindrað útsýni til allra átta, skynja umhverfið, veðrið, hitastigið og lyktina.
Á Íslandi eru aðstæður einstakar til ferðalaga á malbiki eða möl, en tímabilið stutt, varla nema frá apríl fram til október. Þess vegna er tilvalið að fara erlendis í ferð á mótorhjólum á þessum tíma. Suðurhluti bandaríkjanna og evrópu liggja næst og á báðum þessum stöðum er víða hægt að leigja sér hjól með eða án leiðsögu.
Við leigðum ný Harley Davidson Electra Glide Classic hjól hjá Eagle rider í Las Vegas fyrir rúma 100$ á dag með öllum tryggingum. Þeir eru með starfsstöðvar víða í bandaríkjunum og það er líka hægt að leigja BMW hjól á sumum stöðum. Hægt er að hafa þann hátinn á að leigja hjól á einum stað og skila á öðrum. Þannig er t.d. tilvalið að skella sér Route 66 á Harley í 2 vikur, byrja í Los Angeles og enda í Illinois.
Það er alltaf betra að fara austur til vesturs því þá er sólin meira í bakið og blindar síður, sérstaklega seinnipart dags. Svona ferðalög þurfa töluverðan undirbúning og rétt er að skipuleggja ekki lengri dagleiðir en u.þ.b. 200 mílur ( um 322 km.). Það á að vera einn fararstjóri með alræðisvald án þess að þurfa að afsaka ákvarðanir sínar, en hann skal hafa samráð við ferðafélaga í stoppum, en tekur einn ákvörðun um útfærslu leggja og leiðir ef menn lenda í villum. Það er nauðsynleg að stoppa stuttlega á um eða rúmlega eins tíma fresti og rétta úr sér, með lengri stoppum 2-3 á dag. Hæfilegur ferðatími er kannski 6-7 klst. og gott er að vera kominn á áfangastað milli kl 17 og 18, fyrr ef ekki er búið að finna gistingu.
Gisting er yfirleitt ekkert vandamál að finna og á ekki að þurfa að panta fyrirfram, og oft gott að gera ekki því áætlanir geta breyst. Það á ekki að vera að spenna sig að komast of langt, lenda í myrkri og villum, þá verða slysin. Slysin verða líka ef einhver dregst afturúr og er að reyna að ná hópnum, þá er sprett úr spori og umhverfið ekki metið af yfirvegun eins og alltaf þarf að gera. Ég tel nauðsynlegt að fyrsti og síðasti maður sé með GPS og jafnvel fleiri ef hópurinn er stór. Þeir sem eru með tæki þurfa að slá inn nákvæmlega sömu staðsetningu, sem getur komið sér vel ef hópurinn slitnar í sundur í mikilli umferð. Þeir sem ekki eru með GPS þurfa að hanga með þeim sem eru það, eins og límdir. Það er ekki hægt að reiða sig á farsíma, sambandið er óáriðanlegt og það er mjög dýrt. Þá eru þeir sem eru villtir oft ekki með á hreinu hvar þeir eru og ókunnugleiki gerir þeim óhægt um vik að lýsa aðstæðum.
Harley Davidson hjólin eru sérstök, og einstök. Þetta eru ekki bestu aksturshjól í heimi eða öruggust, en þau henta vel í þetta verkefni. Það fylgir því líka mikil nostalgia að aka um á svona fák og titringurinn og hljóðið eru to die for. Ef ég væri að fara mikið snúna fjallvegi myndi ég velja BMW hjól sem hafa mun betri aksturseigileika. En þetta eru trúarbrögð, og það er erfitt að snúa múslimum til kristni. Tilfinningin að svona ferð lokinni ? Hún er einstök, hún er þreytt, sólbrennd, aum í herðum, gleði í hjarta og ég hef eignast marga nýja góða vini til lífstíðar. Svo er það skrifstofan á mánudagsmorgun kl 8 að takast á við skjalabunkana og reikningana, ég veit að brosið verður áfram stirðnað á mér þetta er bara gaman og svo er að láta sig dreyma um næstu ferð ,ég á ekki eftir að taka eftir vetrinum það verður bara sól í hjarta.
Þeir sem áhuga hafa á frekari ráðleggingum með svona ferðir er velkomið að hafa samband : gb.medx@gmail.com
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.