Sunnudagur, 7. september 2014
Í fjöllunum
Það er dáldið erfitt að lýsa tilfinningunni í mótorhjólaakstri. Það er einhver ólýsanýleg frelsistilfinning. Þú skynjar náttúruna og umhverfið á annan hátt, það er lykt, ljós hitastig og útsýni. Þannig er hægt að horfa 260 gráður á svipstundu og 180 gr. upp og 45 gr. niður. Tækið verður einhverskonar framlenging á manns fínustu taugum líkamans. Þetta er örugglega bráðhollt segir endurhæfingarlæknirinn.
Ég er búinn að hjóla á mótorknúnum vélfák síðan ég var 13 ára og er búinn að taka í sundur og setja saman mörg mótorhjól. Þetta er eins og úrverk, og verkfærin eftir því. Bílaviðgerðir eru bara hreinn groddi í samanburði við það. Það eru mörg vetrarkvöldin sem ég hef setið í skúrnum og gert við, bætt og endurbætt fyrir sumarið.
Þess vegna eru svona ferðir svo dýrmætar. Ég er reyndar á nýju hjóli, það er það sem hægt er að kalla state of the art.
Svo er það ævintýrið að ferðast á svona tæki, maður tekur bara með sér það sem er nauðsynlegt, annað skiptir ekki máli. Maður reynir á sjálfan sig, sinn karakter, gefast ekki upp, lesa fólk og njóta augnabliksins. Ég hef það alltaf að leiðarljósi að koma heill heim, vonandi betri maður fyrir mig og mína.
Við nafni lögðum af stað í morgun frá Bordoux héraði eftir að hafa spurt Geirþrúði ráða. Hún ráðlagði okkur ákveðna leið sem við breyttum til að vera ekki í mikilli umferð en í sveit, sem hún samþykkti.
Morguninn var svalur, en það hlýnaði fljótt, gripu kaffi og crossant á útistað og svo var stefn suður. Falleg leið, meira en það, stórkostlega falleg, vínakrar og skógur og vegurinn sveiflaðist upp og niður og vestur og austur. Við áðum nokkrum sinnum og nutum mannlífsins í litlum bæjum Frakklands, sátum á bekk og fylgdumst með. Það var brúðkaup í gær á leiðinni og í dag var það mót lúðrasveita.
Þegar við áttum um 150 km eftir á áfangastað í Spænsku fjöllunum birtust þau. Eins og voldugur veggur, eða brotsjór á leið á skip. Smám saman færðust þau nær og urðu risavakin og við fórum að fara inn í djúpan dal með háum fjöllum. Það er búið að vera heitt í dag, allt að 30 gr. en nú kólnaði aðeins. Við vorum komnir upp í 700 m. hæð í fjallasalnum þegar við komum að spænsku landamærunum. Það var eins og við mannin mælt þá byrjuðu vandræðin.
Um það bil sem ég var að fara yfir landamærin, en þau eru auðkennd með svona eins og biðskýli strætó í litlum steinhúsabæ í fjallasalnum, þá skeði það.
Það var vespa inni í hjálminum !!!!! - Ég veit ekki hvernig hún kommst inn en hún var þarna. Ég negldi niður og lyfti upp kjálkanum á hjálminum, reif hann af mér og blés hana burt. Bullandi hjartsláttur og uppnám en þetta slapp. Ég lagði af stað, og hvað skeður þá ?
Þrumur og eldingar og steypiregn í fjöllunum. Suðvestan áttin á Álftnesi í 20 m/s er eins og Vínardrengjakór miðað við þetta. Við nafni skelltum okkur útaf undir stórt eikartré og söfnuðum hugrekki að halda áfram. skúrin sem var eins og fellibylur, en gekk yfir. Við skelltum okkur í regngallann og áfram. Meira regn. 1400 m og þá 5 km löng göng. Hinu megin í 1600 m. var sól og allt þurrt. Það fór úr 29 gr. niður í dalnum niður í 13 gr. í göngunum og svo hlýnaði hinum megin. Smá dropar og svo allt þurrt og allt í einu var orðið sjóðandi heitt í gallanum. Við ókum síðan krókóttan smáveg með nýju malbiki, minnir á Lyngdalsheiðina gömlu plús skógur ansi greitt.
Nú erum við komnir í Castejón de Sos á Spáni í hjarta Pyrenníafjalla.
Fjöllin bíða morgundagsins okkar- við sjáum þau út um gluggann. Spáin er góð framan af degi en síða úrhelli. Borðuðum úti og hittum nokkra mótorhjólamenn, bræður okkar, Írar sem tóku okkur eins og týndu sonunum, skál og allt það úti við í blíðunni. Við förum því snemma í bælið. Spáin er þokkaleg, þurrt í fyrramálið en þungar skúrir í fjöllum síðdegis við verðum komnir snemma heim hingað á okkar gistingu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.