Föstudagur, 13. júní 2008
Þjóðleið 66
Við vöknuðum snemma. Helga skellti sér í nudd og ég gekk frá farangri og lét sækja bílinn sem var í geymslu. Þetta hótel er þvílíkt stórt að það er með ólíkindum að farangurinn skuli komast niður að bíl - minnir mann á flugstöð. Alstaðar er maður að gefa þjórfé, sá sem sótti töskurnar, sá sem kom með bílinn og sá sem kom með töskurnar að bílnum. Skrýtið kerfi en svona er það í henni Ameríkunni. Við ókum út úr Las Vegas um 10 leytið og létum Garminn koma okkur áleiðis. Við ókum veg 93 að Hoover stíflunni sem er í um 40 mílna fjarlægð frá Las Vegas. Þegar þangað kom blasti við okkur sjón. Stíflan var byggð á árunum 1931-1935 og var á sínum tíma mikið stórvirki. Menn stífluðu Colorado ánna til að framleiða rafmagn og hafa stjórn á ferskvatnsbúskaps svæðisins. Stíflan er mikilfengleg og stór þar sem hún stendur eins og tappi í gljúfrinu. Stöðuvatnið sem hún myndar teygir sig mjög langt inn í landið. Náttúran hér er mikilfengleg og hana hefur maðurinn beislað. Það vekur nokkurn ugg hjá mönnum hér að vatnsborðið fer stöðugt lækkandi og ef svo heldur áfram kemur til með að vanta neysluvatn á Los Angeles svæðið. Eftir morgungönguna upp og niður tröppur héldum við áleiðis, nú komin til Arizona. Vegur 93 að Kingman í Arizona minnir mann dálítið á Ísland, okkur fannst við fyrst vera í Grafningnum og síðan á leiðinni til Keflavíkur í hrauni með fjöll á vinstri hönd. Það eina sem var öðruvísi var það að við vorum á blæjubíl í rúmlega 30 stiga hita og sól. Við gáfumst upp því þegar hitinn fór hækkandi og skelltum þakinu á og loftkælingunni í gang. Í Kingman komust við á þjóðleið 66 eða route 66 eins og heimamenn kalla veginn. Mother road eins og heimamenn kalla veginn, liggur frá Chicago til Los Angeles. Þetta er vegurinn sem notaður var til að komast frá austurströndinni til vesturs. Á seinni árum hafa hraðbrautir tekið við en við ókum um eins mikið af gamla veginum eins og við gátum. Við komum til Seligman og síðan til Williams í Arizona sem eru gamlir bæjir sem standa við þjóðveginn. Þá lá leiðin í norður veg 64 til Grand Canyon. Það var nokkuð liðið á daginn þannig að við opnuðum toppinn og keyrðum í eftirmiðdagssólinni og tæplega 30 stiga hita. Grand Cayon eða Miklagljúfur er ekki hægt að lýsa, maður verður bara að upplifa það, allt í einu stendur maður á barminum. Við sem sjaldnast verðum kjaftstopp vorum agndofa. Í kvöldroðanum horfðum við bara, 5 mílur yfir á bakkann hinumegin og 6000 fet niður allt rauðglóandi. Þessu er ekki hægt að lýsa, vonandi geta myndirnar lýst þessu að einhverju leyti. Við fengum mjög góða gistingu og kvöldmat við gljúfurbarminn og sólsetrið var stórfenglegt á svölunum svo ekki verði meira sagt.Á morgun (föstudagur 13 ! ) Monument Valley og Utah. Eins gott að fara varlega
Setti fleiri myndir í albúmið.
Athugasemdir
Þetta eru flottar myndir. Gaman að fylgjast með ykkur. Gangi ykkur vel áfram kk Ási bró og Stína
Ásbjörn Björnsson (IP-tala skráð) 14.6.2008 kl. 01:02
Gaman að heyra að þið skemmtið ykkur vel og fariði varlega kveða Guðni, Hanna og litli prins
Hanna,Guðni og litli kútur (IP-tala skráð) 14.6.2008 kl. 01:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.