Þriðjudagur, 17. júní 2008
Í Klettafjöllum
Ég var búinn að gleyma því hvernig það er að vera í 3200 metra hæð. Við vorum hérna fyrir nokkrum árum og fengum þá snert af háfjallaveiki. Það er eins og það sé alltaf einhver þrýstingur í höfðinu og maður sefur illa og mæðist við það eitt að ganga upp einn stiga. Þau sem hér búa segja að það taki um 2-4 vikur fyrir fólk að jafna sig þokkalega. Hér er enn mikill snjór í fjöllum en sumarið kom fyrir 2 dögum. David og Trish fluttu til Breckenridge fyrir 16 árum frá Skotlandi. Þar var hann bóndi en þeim langaði að breyta til. Nú rekur hún fataverslun aðallega með fínan skíðafatnað sem heitirAlpine Collections. Hann byrjaði upphaflega á því að reka hér bar en fór fljótlega að vinna við að ryðja snjó með egin vél og á nú verktakafyrirtæki með 35 manns í vinnu. Þau hafa komið sér vel fyrir hér í fjöllunum í stóru húsi með útsýni sem á engann sinn líka. Dæturnar tvær eru farnar að heiman, Charlotte aftur til Skotlands en Nicola býr í Denver í Colorado. Við David erum búnir að vera vinir frá 10 ára aldri og höfum heyrt í hverjum öðrum eða sést mörgum sinnum á ári. Það er löng saga að segja frá því hvernig leiðir okkar lágu saman en ég ætla samt að láta hann fjúka því hún er dálítið sérstök. Árið 1940 hernámu Bretar Ísland. Með innrásarliðinu kom ungur skoskur hermaður Fenton T. Davidsson þá 23 ára að aldri. Móðurbróður mínum Markúsi Guðjónssyni járnsmið og honum varð fljótt vel til vina enda líkir og báðir sérstaklega vel gerðir menn. Amma mín Guðrún Jónsdóttir bauð Fenton í jólamat þar sem hann var einn á jólum, það þótti nú ekki sjálfsagt í þá daga m.v. hvernig ástandið var. Þannig kynntist móðir mín Ásta honum og síðar faðir minn Björn Guðmundsson þegar þau fóru að vera saman. Eftir stríðið fór Fenton þá orðinn verkfræðingur að vinna í Trinidad í Karabíska hafinu fyrir BP olíufélagið. Hann fór til Skotlands tvisvar á ári og kom þá alltaf við á Íslandi hjá vinum sínu. Hann giftist Helen (fædd Allan) árið 1958. Þau fóru að reka hótel í New Galloway í Skotlandi árið 1965. Þegar ég var 10 ára var ég sendur í sveit til þeirra. Ég átti mörg yndisleg sumur með þeim og vann sem garðyrkjumaður og töskuberi á hótelinu. Þeim varð ekki barna auðið og þau tóku mig eiginlega í fóstur og þau urðu mér mjög kær.David Allan er bróður sonur Helen og við vorum kynntir fyrir hver öðrum fyrst þegar ég kom af því að við erum jafnaldrar, og urðum fljótt perluvinir. Þessi vinskapur hefur varað allatíð síðan. Nú erum við hér félagarnir saman og okkar konum sem einnig hafa verið vinkonur í öll þau ár sem við höfum verið saman. Helen er enn á lífi, nú 85 ára og býr í Skotlandi en Fenton lést árið 1993, við hringdum í hana strákarnir í gær og hún lagði okkur lífsreglurnar eins og alltaf. Helen tala ég við um nánast í hverri viku.David vinur minn er ekki alveg heill heilsu hann á við veikindi að stríða sem aðallega hrjá lungun tímabundið, en hann mun jafna sig á 6-12 mánuðum. Ég hefði viljað senda hann til Flórída í húsið okkar en hann vill þjást hér við með súrefni í nös. Það verður erfitt að skilja við hann núna á miðvikudaginn en þá heldur ferðin langa áfram. Planið er að fara til Chicago í Illinois en það er um 2ja daga ferð um 1000 mílur, eða eins og að fara hringinn um Ísland. Það er kominn 17 júní um allt land eins og einhver sagði og líka hér, við höldum upp á daginn með hátíðlegum hætti, ég ætla að skella íslenska flagginu á lítilli stöng við dyrnar.Bætti við nokkrum mundum - Gleðilega hátíð !
Athugasemdir
Kæru vinir
Gleðilega þjóðhátíð. Það er frábært að fylgjast með þessu ævintýri. Ekkert smá fallegt þarna.
Áframhaldandi góða ferð.
kveðja
Jón Þrándur og Ingibjörg
Jón Þrándur (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 10:45
Gleðilega þjóðhátíð.......lúðrasveitin er búin að keyra framhjá. Hæ,hó,jibbí jei, það er kominn 17.júní. kveðja Hulda
Hulda (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 11:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.