Sunnudagur, 22. júní 2008

Við höfum verið um helgina hjá vinum okkar Gunnari Thors og Guðrúnu Vigdísi Jónsdóttur í Barrington Illinois. Barrington er úthverfi Chicago og þar hafa þau komið sér vel fyrir í húsi frá sjöunda áratugnum í funkis stíl. Húsið mun hafa verið byggt að þeirra sögn fyrir fyrri konu einhvers M-fíósa sem yngdi upp. Þau hafa búið hér í 4 ár og hafa verið að gera húsið upp á sinn hátt. Ólíkt því sem við eigum að venjast er lóðin stór eða um 5 ekrur ( um 2 hektarar). Ég var spurður að því hvernig við þekkjum Gunnar og Guðrúnu. Það er þannig að við vorum þrjú saman í Læknadeildinni í Háskólanum og útskrifuðumst árið 1984 og varð vel til vina. Eftir kandidatsár fórum við til Svíþjóðar en þau til Bandaríkjanna í framhaldsnám. Við höfum alltaf haldið sambandi og meira nú á seinni árum. Gunnar og Guðrún reka fyrirtækið Midwest plastic surgery með fegrunarlækningar og ýmislegt því tengt. Á föstudagskvöld voru þau búin að bóka okkur með sér á s.k. fundraiser eða styrktartónleika fyrir kór sem dóttir þeirra Edda er í. Boðið var haldið á heimili Sanfillipo fjölskyldunnar hér í nágrenninu. Fjölskyldan lifir á auð sem byggir á einkaleyfi á aðferð til að hreinsa hýði af hnetum. Ég verð að segja að ég hef aldrei komið á annan eins stað í lífi mínu og hef ég þó séð ýmislegt um ævina. Jasper Sanfillipo fjölskyldunnar hefur byggt 44.000 ferfeta ( 4000 fermetra) hús á 57 ekrum ( 23 hektarar). Ástríða hans er tónlist og söfnun á munum tengdri tónlist. Á heimilinu er tónleikasalur sem hýsir 300 manns og pípuorgel með 8000 röddum. Þeir sem ekki trúa þessu geta skoðað myndirnar eða lesið sig frekar til á tenglinum http://www.forbes.com/forbes/2003/1006/286.html Í gær (laugardag) fórum við og hjóluðum öll um 15 mílur á s.k. Fox trail sem liggur með fram Refalæk (Fox river) hér í nágreninu. Þá heimsóttum við Robert og Terry Davis sem eru fullorðin hjón sem búa hér í nágreninu og hafa rekið kvikmyndafyrirtæki. Bob kynntist föður mínum árið 1950 á Skipinu Esjunni þegar Bob kom til Íslands til að taka kvikmynd af landi og þjóð en pabbi var að koma heim úr námi sem klæðskeri. Þeir héldu saman alla tíð og voru oft á Íslandi og kvikmynda. Það voru fagnaðarfundir. Í dag (sunnudag) heldur ferðin langa áfram. Við erum búin að ferðast um 2400 mílur ( 3900 km) og eigum eftir líklega um 1400 mílur ( 2200 km). Við gerum ráð fyrir 4-5 dögum í verkefnið. Við stefnum á Smokey Mountains í North Carolina og veðurspáin og stemningin er góð.
Flokkur: Ferðalög | Breytt s.d. kl. 15:16 | Facebook
«
Síðasta færsla
|
Næsta færsla
»
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.