Þriðjudagur, 24. júní 2008

Við fórum ekki mjög snemma af stað þrátt fyrir góðar fyrirætlanir. Porterinn sem var vel í holdum sótti bílinn og lagði fyrir utan hótelið í miðbæ Cincinnati. Mér var nú ekki alveg sama um vagninn sem ég sé varla af. Þetta er líklega eins og að eiga góðan fallegan og tryggan hund, honum má ekki bjóða hvað sem er. Ég lét mig nú samt hafa það og krossaði fingurna að hann færi nú ekki að taka einhvern morgunrúnt í miðbænum og rispa felgurnar á kantsteininum. Þarna var hann fyrir utan eins og ég hefði skilið hann þar eftir kvöldið áður. Við ókum út úr Cincinnati, yfir ánna í næsta fylki Kentucky eins og frú Garmin skipaði fyrir. Þaðan þræddum við Ohio ánna, þó mest Ohio megin næstu tímana. Lunch á Mamas grill, alveg eins og staðirnir gerast best í sveitum Ameríku, egg og skinka appelsínu safi og kaffi, - nammi namm ! Áfram í austur og yfir í Vestur-Virginiu og síðan í Virginiu. Við eltum dalina í fjöllunum aðallega á vegi 64/77 sem er hraðbraut og liðast um landið, í djúpum giljum og göngum. Fjöllin ef svo mætti kalla, urðu sífellt hærri og landið hækkaði. Veðrið var ákjósanlegt 25-28 gr C og við gátum flett af blæjunni mestan hluta dagsins. Við stefndum á takmark okkar Blue ridge parkway. Þessi vegur var byggður á árunum 1930-35 sem atvinnubótarvinna í kreppunni. Vegurinn liggur frá Pensilvania í norðri niður í Georgia í Appalacia fjöllunum (Smokey mountains) um 250 mílna vegalengd. Hann hefur engan annan tilgang en að láta þann sem fer um hann njóta útsýnisins þar sem hann liðast um fjallatoppanna. Engir trukkar, engin gatnamót, bara sléttur malbikaður vegur í skóglendi þar sem horft er á dalina fyrir neðan. Þetta er vegur fyrir fíkla - ég meina þá sem hafa gaman af ferðalögum, útvist, fallegri náttúru og góðum bílum. Við vorum orðin dálítið lúin um kvöldmatarleitið og spurðum frú Garmin hvar gott væri að gista. Hún benti okkur á Best Western-Inn í 10 mílna fjarlægð þá komin í fjöll North Carolina. Við þangað, fórum á Subway (svindluðum á kúrnum) og fengum okkur hressingu. Svo er það bara að safna kröftum fyrir mogundaginn. Það verður áfram veisla fyrir okkur, 170 mílur af Blue ridge parkway, svo Smokey mountain National park og niður á sléttur Georgiu. Við eru búin að tryggja okkur gistingu hjá vinum okkar þar, segi meira frá því í næsta pistli. Setti inn fleiri myndir.
Athugasemdir
Það er aldeilis gott að eiga frú Garmin!
Erla (IP-tala skráð) 24.6.2008 kl. 11:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.