Á hraðferð

Ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn af að keyra mótorhjól á hraðbrautum.  Það er ekki af því tækið ráði ekki við það- það gæti farið fram úr flestum bílum ef því er að skipta.  Ástæðan eru aðstæðurnar sem skapast á mikilli ferð.  Athyglin þarf að vera 100% og það má ekkert út af bera.  Hraðinn og hávaðinn og sviptivindar frá öðrum ökutækjum í kring valda streitu og þreytu. Því ek ég alltaf með eyrnatappa við svona aðstæður.  Hraðbrautir eru reyndar misjafnar, í Sviss eru þær t.d. til fyrirmyndar og einnig í Bandaríkjunum.

 

DSC02203

 

 

 

 

 

 

Ég er haldinn fordómum um hraðbrautir Frakklands.  Ég veit ekki nákvæmlega hvenær þetta byrjaði, en líklega þegar við vinirnir fórum fjórir saman 18 ára gamlir í Evrópuferð á gömlu Fólkswagen “rúgbrauði”, með ferjunni Smyrli sem þá hét og sigldi frá Seyðisfirði til norður Skotlands.  Við enduðum í Frakklandi þó metnaður okkar hefði verið að komast til Ítalíu.  Það er ekki síst vegna þess að að rúgbrauðið var drykkfellt, komst ekki nema á rúmlega 100 og við lentum í tómu tjóni á Frönsku hraðbrautunum. Þannig vorum við stopp lengi í steikjandi hita af því að greiðsluvél við hlið virkaði ekki.  Þetta eru tæp 40 ár síðan.

 

DSC02198

 

 

 

 

 

 

Ég spurði Geirþrúði þegar ég vaknaði fimmtudagsmorgun hvað væri langt til Mílanó.  Hún svaraði um hæl – 850 km, og þú verður að taka hraðbrautir ef þú ætlar ekki að vera meir ein hálfan sólarhring á leiðinni.  Þá var bara að drífa sig af stað, á slaginu 9.  Ég ók um 180 km á fyrsta leggnum út úr Spáni og inn í Frakkland.  Þá byrjaði ballið, mikil umferð hiti og endurteknar biðraðir á vegtollastöðvum, og viti menn, greiðsluvélin tók á 3 stöðum af 10 á leiðinni ekki kortin mín og á einum stað ekki peninga.  Þetta er ekki skemmtilegt í 30 stiga hita með hjálm og í galla og engin til að aðstoða og enginn kunni ensku.  Ég gat smyglað mér með öðrum mótorhjólamönnum sem kölluðu á mig og sýndu mér hvernig fjögur mótorhjól geta leikið einn bíl ef þau ækju saman í takt og einn borgaði.  Hafðu engar áhyggjur sögðu félagar frá Spáni, allar myndvélarnar eru bilaðar.  Það hefur semsagt ekkert breyst á tæpum 40 árum.

Lesendur bloggsins gætu haldið að ég væri fordómafullur gagnvart frökkum, en það er ekki svo, þetta bara er svona.

 

DSC02199DSC02197

 

 

 

 

 

 

Það bjargaði ferðinni sú fallega leið sem ég ók frá Nice til Genóva  Þetta er einn fallegasti vegur sem ég hef ekið, en hættulegur.  Hann er þröngur, hraður allt að 130 km/klst og það skiptast á brýr og göng í sífellu á langri leið.  Blátt miðjarðarhafið sést til hliðar og byggð niður með strönd og upp allar hlíðar.  Ég náði nokkrum myndum sem vonandi gefa lesendum smá hugmynd.


Geirþrúður sagði að við hefðum ekki tíma til að fara til Monaco þó stutt væri ef við ætluðum að vera komin til Milanó f. myrkur.  Ég hef komið þar áður, en langaði til að leyfa Doctornum að taka einn hring á Formúlu 1 brautinni í miðbænum og ná svo sem eins og einni mynd af okkur til að geta montað okkur á blogginu.

DSC02206

 

 

 

 

 

 

Leiðin upp frá Genóva í átt að Milano hefst á hraðbraut, sem klifrar upp fjöllin og fer yfir brýr og inn í göng, um 20 km leið – verkfræðilegt meistaraverk. Það voru ský í fjöllum og súld en 25 stiga hiti.  Upp á hásléttunni var hægt að aka greitt á góðum vegi.  Sólin var að setjast þegar ég renndi út af hraðbrautinni í átt að Milanó 3 þar sem Siggi vinur minn hefur aðsetur.  Ég hafið tekið einn miða við landamærin og afhenti hann nú við útganginn.  27 evrur, en þetta virkar.

 

IMG_1513  

 

 

 

 

 

 

 

Það urðu að sjálfsögðu fagnaðarfundir þegar við Siggi hittumst, og ég kom hjólinu inn í bílskúr.  Ég verð að viðurkenna að ég var orðinn ansi lúinn eftir 11 tíma ferð en stoltur af mér að klára þetta verkefni og finna hvað maður kemst ennþá langt með sjálfan sig ef á reynir.   

Á morgun kem ég hjólinu í vetrargeymslu hjá honum Paulo sem rekur mótorhjólaverkstæði og svo ætlum við bara að njóta helgarinnar saman gömlu félagarnir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband